Kevin Kraus

Kevin Krauss, sem er starfsmaður Herbalife, hafði keppt í þríþraut Herbalife síðustu ár, en á viðburðinum 2014 voru aðstæður hans gjörbreyttar. Það sumar hafði hann verið á heimleið úr vinnu á mótorhjólinu sínu þegar hann lenti í alvarlegu umferðarslysi. Hann rankaði við sér á spítalanum, illa áttaður og mjög skaddaður á vinstri fæti. Læknarnir gerðu níu mismunandi aðgerðir en gátu ekki bjargað fætinum. Þann 7. júní 2014 var fóturinn numinn brott að hluta til. Faðir Kevins lýsir því hversu mikill íþróttamaður sonur hans hafi verið. Faðirinn segir að hann hefði aldrei getað ímyndað sér að sonur sinn þyrfti að læra að lifa með aðeins einn fyllilega starfhæfan fót. Dagana og vikurnar eftir slysið stóð Kevin sig stundum að því að hugsa: „Hvers vegna ég“? Hann sá að framtíðin gæti stefnt í tvær gjörólíkar áttir – annars vegar gæti hann sökkt sér í sjálfsvorkunn, efasemdir og eftirsjá og hins vegar gæti hann reynt að sigrast á mótlætinu og sanna fyrir sjálfum sér að hann gæti yfirstigið hvaða hindrun sem er. Þökk sé stuðningi fjölskyldunnar, vina og samstarfsfólks var vorkunn einfaldlega ekki í boði. „Samstarfsfólk mitt hjá Herbalife stóð fyrir fjöldamyndatöku þar sem allir bjuggu til skilti og teknar voru myndir af hundruðum starfsfélaga minna. Myndirnar sem ég fékk snertu mig að innstu hjartarótum,“ rifjar Kevin upp. Mamma hans lýsir því hversu spenntur hann hafi verið að byrja að ganga þegar hann kom heim af spítalanum og jafnframt fullur eftirvæntingar að komast til stoðtækjalæknis. Hann kom lækninum í opna skjöldu þegar hann stóð upp og byrjaði að ganga á nýja gervilimnum um leið og hann var mátaður á hann. Kevin fann fyrir meiri drifkrafti en nokkru sinni fyrr til að ljúka þríþrautinni og stundaði stífar undirbúningsæfingar þrátt fyrir þessa nýju fötlun. Á keppnisdeginum voru taugarnar þandar, en allur undirbúningurinn skilaði sér. Hann útskýrir þetta sem svo: „Keppni í þríþraut er einhver stærsta áskorun sem til er fyrir andlegt ásigkomulag. Hún neyðir íþróttamanninn til að halda ótrauður áfram þrátt fyrir líkamlega verki og finna sinn innri styrk. Að komast í mark í þríþraut Herbalife var besta tilfinning sem ég hef fundið fyrir í mjög langan tíma.“ Nú vill Kevin mæta enn sterkari til leiks í næstu þríþraut. „Ég vil ekki að fólk líti á mig og segi „Vá, þetta er frábært, gott hjá honum.“ Ég vil að það líti á mig sem verðugan keppinaut og reyni að halda í við mig,“ segir hann. „Ekki sóa tímanum í að vorkenna mér. Ég læt ekkert stöðva mig. Ég er mættur til leiks.“